Greinargerð til Málræktarsjóðs, Málfarsbankinn

22. febrúar 2017                                                                                               Jóhannes B. Sigtryggsson

Greinargerð um ráðstöfun styrkfjár

Styrkþegi: Hulda Óladóttir, kt. 020487-3059, This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

Heiti verkefnis: Málfarsbankinn – endurnýjun og samræming

Tímasetning þátta: Endurskoðun Málfarsbankans (september 2017–janúar 2018).

Uppgjör: 700 þ.kr. styrkur frá Málræktarsjóði. Auk þess fékkst styrkur úr Nýsköpunarsjóði námsmanna (Málfarsbankinn – endurnýjun og samræming nr. 174955-0091, 699þúsund kr. Styrkurinn skiptist á 1 nemanda/nemendur í samtals 3 mánuði.)

Styrkur Nýsköpunarsjóðs nýttist til að greiða BA-nema í íslensku (Oddi Snorrasyni) laun sumarið 2017. Oddur vann ýmsa einfalda handavinnu og samræmingu í gagnagrunninum og vann í haginn fyrir framhaldsvinnu Huldu við endurskoðun Málfarsbankans. Oddur hann gerði því ýmislegt af því sem nefnt var í umsókninni til Málræktarsjóðs. Hann vann m.a. við það að færa færslur í bankanum til samræmis við ritreglur Íslenskrar málnefndar (2016) og bæta við greinum úr málfarsráðgjöf Árnastofnunar. Styrkurinn úr Nýsköpunarsjóði gerði það því að verkum að Hulda gat frekar einbeitt sér að frekari þróun bankans og hugmyndavinnu. Upphaflega stóð til að Hulda ynni við endurskoðunina síðasta sumar en ákveðið var að hún hæfi ekki störf fyrr en Oddur hefði lokið sínum hluta síðasta haust.

Ég nefni hér hér á eftir helstu verkhluta sem Hulda vann að:

Við upphaf vinnu Huldu voru í gagnagrunni Málfarsbankans 7958 færslur. Hún samdi 140 nýjar færslur og þær eru því nú samtals 8098.

Í upphaflega Málfarsbankanum var frekar takmörkuð flokkaskipting færslna. Flokkar voru 12, t.d. Orðalag, Orðsifjar, Setningarleg atriði. Hulda bjó til nýtt flokkunarkerfi með undirflokkum þannig að nú eru samtals 47 flokkar, t.d. Merking, samheiti; Listar, lönd; Beyging, leiðrétting; Stafsetning, línuskipting, Stafsetning, stór/lítill stafur o.s.frv. Hún fór yfir allar færslur í grunninum (8098) og flokkaði þær eftir þessu nýja flokkunarkerfi.

Hluti af endurskoðun Málfarsbankans fólst í að taka út upplýsingar sem ekki væri lengur þörf á að sýna og sem önnur söfn eða orðabækur sinntu nú. Þetta á sérstaklega við um einfaldar beygingarupplýsingar sem nú má yfirleitt finna í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls (bin.arnastofnun.is). Í Málfarsbankanum voru 2392 færslur merktar flokknum Beyging og 1567 flokknum Nöfn í gagnagrunni. Færslur í þessum flokkum höfðu við upphaf endurskoðunar síðasta sumar verið settar í bið í gagnagrunni þannig að þær sáust ekki á Málið.is. Hulda fór yfir þetta og valdi úr til birtingar þær flettur sem hefðu almennt gildi og gagnlegt væri að sýna. Hún tók 745 færslur úr bið í flokknum Beyging og 581 úr flokknum Nöfn og fór um leið yfir efni þeirra. Hulda fór einnig yfir aðra flokka og setti ónauðsynlegar færslur í bið.

                Við þessa vinnu bjó Hulda til viðmiðunarreglur fyrir hvern flokk um hverju skyldi halda og hvað ætti að setja í bið. Í flokkunum Beygingar og Nöfn var haldið tvímyndum og nöfnum sem beygjast öðruvísi en samsvarandi samnafn. Margt sem finna má í flokknum Stafsetning er í Stafsetningarorðabókinni en þar er hins vegar ekki hægt að fletta eftir rangri útgáfu orðs eða orðasambands. Í flokknum Aðlögun tökuorða eru margar færslur um þýðingar á nýyrðum. Sumar eru orðnar almennar og viðurkenndar í málinu og því ekki þörf á færslunum lengur. Ef enn var ástæða til að styðja notkun nýyrðisins var færslunni haldið. Margt sem er í flokknum Orðsifjar má finna í Íslenskri orðsifjabók og var þá sleppt.

Í upphaflegum gagnagrunni Málfarsbankans var notað frumstætt vísanakerfi til þess annars vegar að vísa í heimild (t.d. [:Ordsifjabok:Íslensk orðsifjabók]) og hins vegar í nokkrar grunnfærslur þar sem fjallað var almennt um atriði eins og ef. ft. veikra kvenkynsorða (sjá: [:na-regla,"...":Nánar um eignarfall fleirtölu.]). Á upphaflegu vefsíðunni voru þetta tenglar en eru nú úreltir. Hulda tók í burtu allt þetta þetta html-efni og uppfærði vísanir.

Landa- og ríkjaheiti voru sérstaklega tekin fyrir og þau samræmd eftir nýjustu gerð opinbers ríkjaheitalista (sjá  http://www.arnastofnun.is/page/rikjaheiti). Færslur voru staðlaðar svo auðveldara væri að uppfæra þær.

Auk þessara einstöku verkþátta fór Hulda almennt yfir greinar, samræmdi orðalag og lagfærði.

Hulda hefur að mestu unnið við endurskoðunina í excel-skjali með heildarefni Málfarsbankans. Ég hef síðustu vikur farið yfir þetta skjal og hef að mestu lokið við það. Stefnt er að því að Steinþór Steingrímsson færi (importerað) endurbætur Huldu við Málfarsbankann inn í gagnagrunn bankans. Ný gerð Málfarsbankans á næstu vikum. Ný gerð bankans mun þá sjást á vefgáttinni Málið.is. Einnig er stefnt að því að láta útbúa sérsíðu Málfarsbankans á malfar.arnastofnun.is með öðru ráðgjafarefni sem tengd verður við gagnagrunn hans. Um leið verður lögð niður núverandi sérsíða hans á malfar.arnastofnun.is (Wordpress-síða) sem ekki er hægt að tengja við gagnagrunninn og því torvelt að uppfæra efnið. Með þessu verður samræmi Málfarsbankans tryggt á ólíkum vefsíðum.