Greinargerð til Málræktarsjóðs, Íðorðanefnd í menntunarfræðum

Til stjórnar Málræktarsjóðs,

c/o Kári Kaaber framkvæmdastjóri sjóðsins

SKÝRSLA

Íðorðanefndar í menntunarfræðum vegna styrks úr Málræktarsjóði árið 2018

Íðorðanefnd í menntunarfræðum þakkar mikilvægan styrk úr Málræktarsjóði á árinu 2018 að upphæð kr. 1.000.000.-. Styrkurinn var nýttur til að ráða áfram starfsmann til að vinna með nefndinni í samstarfi við Virk endurhæfingu sem greiddi hluta launanna. Um var að ræða hálft starf í rúmlega níu mánuði eða frá miðjum maí 2018 til loka febrúar 2019.

Hér verður gerð grein fyrir nefndinni og nýtingu styrksins.

$1a)   Um íðorðanefnd í menntunarfræðum

Að nefndinni standa Félag um menntarannsóknir (FUM), Kennarasamband Íslands og Menntavísindasvið HÍ sem tilnefna aðila í nefndina.

Hlutverk nefndarinnar er að taka saman orð og hugtök sem notuð eru á fræðasviðinu og gera þau aðgengileg með þýðingum og skilgreiningum. Markmiðið er að a.m.k. 1.000 íðorð á öllum helstu sviðum menntunarfræða sé að finna í Orðabanka Íslenskrar málstöðvar ásamt skilgreiningum. Tilgangurinn er að treysta grundvöll faglegrar umræðu á íslensku um menntun og skólastarf. Markhópurinn er fræðimenn, starfendur og nemendur á sviði uppeldis- og menntunarfræða, þar með taldir allir starfsmenn og stjórnendur í skóla- og menntastofnunum.

$1b)   Nýting styrks úr Málræktarsjóði 2018 og fram á árið 2019

Styrkur Málræktarsjóðs gerði nefndinni kleift að ráða starfsmann, Helgu Jennýju Stefánsdóttur MS, í hálft starf tímabundið. Með ráðningu hennar í samstarfi við Virk endurhæfingu var unnt að lengja ráðninguna upp í rúmlega níu mánuði (Virk tekur þátt í launagreiðslum ef annar aðili kemur með framlag á móti). Mjög miklu skiptir að hafa starfsmann sem undirbýr efni í hendur nefndarinnar fyrir hvern fund og heldur utan um orðasafnið. Helga Jenný hefur áður starfað fyrir nefndina. Það sparar mikinn tíma þegar samfella er í mannaráðningum.

Safnið skiptist í sex meginflokka menntunarfræða, auk undirsviða. Á fyrri hluta ársins 2018 var áherslan á upplýsingatækni í skólastarfi (unnið í samstarfi við sérfræðinga á sviðinu). Sumarið og fram á haustmisseri 2018 voru fagorð í gildandi námskrám þriggja skólastiga (leik-, grunn-, og framhaldsskóla) til umfjöllunar. Á síðustu mánuðum ársins var unnið með orð úr skólasögu (í samvinnu við sérfræðing). Nú á vormisseri 2019 er hafin vinna með orð sem snerta lestur og læsi með sérfræðingum.

Í orðasafni í menntunarfræði eru nú rúmlega 400 íðorð ásamt skilgreiningum, um 360 þeirra eru birt, önnur í vinnslu. Ljóst var að afköst nefndarinnar jukust mikið þann tíma sem nefndin hafði starfsmann.

Helstu verkþættir starfsmanns voru:

$1a)      Safna hugtökum á því sviði sem unnið er að hverju sinni, velja úr fyrirliggjandi þýðingum eða undirbúa þýðingu á íslensku.

$1b)      Leita að skilgreiningum í fræðiritum, skýrslum og orðasöfnum sem leggja má til grundvallar (á íslensku eða öðrum tungumálum), gera drög að skilgreiningum og bera undir sérfræðinga á viðkomandi sviði.

$1c)      Leggja tillögur að íðorðum og skilgreiningum fyrir nefndina og taka þátt í umfjöllun nefndarinnar.

$1d)      Sjá um frágang á íðorðum, skilgreiningum, rafrænum tenglum og heimildum í orðabankanum.

Mikilvægt er að starf nefndarinnar geti haldið áfram á þeirri braut sem mörkuð hefur verið og að áfram verði kostur á að ráða starfsmann tímabundið til að vinna með nefndinni.

Með vinsemd og virðingu,

fulltrúar í íðorðanefnd í menntunarfræðum:

dr. Gerður G. Óskarsdóttir, formaður

Baldur Sigurðsson, dósent

Jón Ingi Hannesson, framhaldsskólakennari

dr. Ragnhildur Bjarnadóttir, dósent

dr. Þuríður Jóhannsdóttir, dósent